„Fyrstu hæðir Sögu munu opna núna 10.mars, ef það verða ekki verkbann. Tvær síðustu hæðirnar opna svo 22.mars. Í heildina eru þetta 111 stúdíóíbúðir,“ segir Sara Bragadóttir, þjónustustjóri Stúdentagarða.
Stefnt er að opnun nýjasta hluta Stúdentagarða á næstu vikum. Íbúðirnar verða á fjórðu til sjöundu hæð norðurálmu húsins sem áður var Hótel Saga. Nafn nýja stúdentagarðsins ber nafnið Saga og er við Hagatorg í Vesturbæ.
Eldhús og salerni verða í öllum íbúðum þrátt fyrir stærðarmun. „Minnstu íbúðirnar verða 20 fermetrar en stærstu 43 fermetrar, þær eru með auknu aðgengi. Svo verður sameiginleg setustofa í tengibyggingunni sem stækkar íbúðina í raun og veru. Þar hafa íbúar afdrep, ef þú ert að taka á móti gestum eða horfa á leikinn eða Eurovision, í raun hvað sem fólk gerir.“
Háskóli Íslands verður með skrifstofur í húsinu. Einnig verður menntavísindasvið með skrifstofur og kennslurými. Áætlaður flutningur menntavísindasviðs Háskóla Íslands í húsið er árið 2024. Þá sameinast starfsemi þess undir sama þaki.
Nemendur sem flytja inn fyrir þann tíma ættu ekki að verða fyrir miklum truflunum af framkvæmdum.
Verkefnið er samstarfsverkefni á milli Félagsstofnun Stúdenta og Háskóla Íslands. Ístak annast framkvæmdirnar.
Fyrsti hluti Stúdentagarða opnaði 1934 þegar Gamli Garður var stofnaður. Félagsstofnun stúdenta var stofnuð 1968 og hefur haldið utan um íbúðarhúsnæði stúdenta síðan. Nú 89 árum eftir stofnun verður nýjasti hlutinn tekinn í gagnið. „Upphaflega hugmyndin að Hótel Sögu var afdrep fyrir bændur þegar þeir kæmu í bæinn,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, fyrrverandi hótelstjóri Radisson Sas Hótel Sögu. Nú verður þetta afdrep fyrir nema utan af landi sem koma í bæinn.