Að ná átján ára aldri hefur ýmsar breytingar í för með sér en ekki allar þeirra eru jákvæðar. Eitt af því sem breytist þegar þessum áfanga er náð er miðaverð á sundstaði. Það verður því mikilvægara að vanda valið þegar kemur að því að ákveða hvaða sundstaði eigi að heimsækja, þegar stakur sundmiði kostar 1.330 krónur í Reykjavík.
En hvaða laug á að velja?
Þessu geta piltarnir Friðrik Finnbogason, Gunnar Áki Þorsteinsson og Valur Kári Óskarsson svarað. Síðan í áttunda bekk hefur draumur þeirra verið að heimsækja allar sundlaugar landsins, nú eru þeir orðnir tvítugir og í apríl á þessu ári byrjuðu þeir að vinna saman að því markmiði.
Sundsveinarnir, eins og þeir kalla sig, eru búnir að heimsækja 33/130 laugar. Þeir eru með Instagram-aðgang þar sem þeir taka myndir af sér fyrir utan eða í laugunum sem þeir gefa einkunn eftir aðstöðu og upplifun.
Hér er mynd sem að útskýrir einkunnarkerfið:
Samræmi í einkunnagjöf
Í flestum tilfellum eru þeir nokkuð samstíga í áliti sínu en einstaka sinnum eru skiptar skoðanir, t.d. má nefna sundlaugina Vatnaveröld þar sem Friðriki þóttu rennibrautirnar góðar en hinir strákarnir voru ósammála.
Fá oft frítt í sund
Strákarnir hafa meðal annars nýtt sér það að vera með World Class-aðgang og þannig hafa þeir oft náð að fara í sund án þess að borga aukalega.
„Svo er Valur líka mjög góður í að senda tölvupóst á sundlaugarnar sem útskýra verkefnið og þannig fáum við oft að fara frítt inn.“
„Fólk úti á landi er sérstaklega áhugasamt þegar það fréttir af þessu verkefni, kannski vegna þess að það gengur lítið á í sveitinni,“ segir Friðrik.
Þar sem margir eru spenntir fyrir verkefninu fá þeir oft leyfi til þess að taka myndefni í sundlaugunum.
Sundlaugin sem er með hæstu einkunnina hingað til er Sundlaugin á Borg með einkunnina 7,74. Friðrik segir að það sé ekkert sérstakt sem skeri hana úr fyrir utan það að allir þættirnir sem strákarnir gefa einkunn fyrir voru til fyrirmyndar. Þjónustan var góð og fín aðstaða í lauginni.
Það er ekki alltaf mikill munur á sundlaugunum. Friðrik segir að þrátt fyrir að laugarnar á höfuðborgarsvæðinu séu ólíkar séu sundlaugarnar úti á landi oft af svipuðu tagi: „Laugarnar á Suðurlandi eru flestar með eins klefa og potta.“
Strákarnir hafa verið að fara í helgarferðir út á land til þess að reyna heimsækja eins margar laugar og þeir geta. Það getur verið erfitt að undirbúa slíkar ferðir og Friðrik segir að helsta áskorunin í þessu verkefni sé að ferðast og keyra út á land. Hann segir einnig að það sé erfitt að finna tíma til þess að ferðast allir saman í kringum landið.
Strákarnir fara stundum oft á dag í sund til þess að ná sem flestum laugum í einu og það getur haft slæm áhrif á húðina. Friðrik brann meðal annars í septembersólinni og sagði að það væri óþægilegt að vera með þurra húð eftir allan klórinn. Hann segir að fyrir utan það finnist honum þetta verkefni skemmtilegt og þótt strákarnir fari svona mikið í sund segir Friðrik að hann fái sennilega ekki ógeð af sundi. Hann segist vera spenntur að geta mælt með góðum sundlaugum og að heimsækja aftur þá staði sem honum þyki skemmtilegastir.
Hægt er að fylgjast með einkunnagjöfinni á reikningnum @sund_sveinar á Instagram til þess að geta valið bestu sundlaugar landsins.