Heim Pistill vikunnar Ríkisstyrkt skautun 

Ríkisstyrkt skautun 

Íslensk kvikmyndagerð hefur ekki gert neitt til að verðskulda orð eins og framúrskarandi eða glæsilegur í samhengi við árangur líkt og menningar- og viðskiptamálaráðuneytið, áður mennta- og menningarmálaráðuneyti, hefur reynt að þröngva upp á okkur. Í mesta lagi mætti nota lýsingarorð eins og bærilegur, þolanlegur og ásættanlegur. 

Við státum okkur af því að íslenskar kvikmyndir taki þátt á virtum hátíðum um alla Evrópu, þær fá lof ýmissa lopapeysupenna og vekja „víst mikla“ athygli innan sérstaks hóps kvikmyndaunnenda. Hins vegar er kominn tími til að spyrja hvort þessar viðurkenningar skili sér sannarlega í víðtækum árangri. Raunveruleikinn er sláandi – flestar íslenskar kvikmyndir, þrátt fyrir kvikmyndahátíðarferðalag, eiga í erfiðleikum með að laða til sín talsverðan áhorfendahóp og reiða þær sig á ríkisstyrki til að lifa af. 

Þvert á frjósama hefð íslenskra bókmennta og alþjóðlegar viðurkenningar fjölda tónlistarmanna og tónskálda á borð við Björk, Sigur Rós, Hildur Guðnadóttur og fleiri, virðist kvikmyndalandslagið vera fast í spíral sagna sem eiga rætur að rekja til nýraunsæis eða kvikmynda sem eru gerðar með það að markmiði að áhorfendum líði eins og þeir séu inn í málverki Jóns Stefánssonar. Gallinn er sá að hinn hefðbundni borgari nennir ekki að horfa á sama málverkið eftir Jón Stefánsson í 100 mínútur, hvað þá í lengri tíma.  

Það vekur meginspurningu mína: Af hverju höfum við ekki framleitt fleiri kvikmyndir byggðar á menningararfi okkar? 

Íslenskar bókmenntir, með sinni dýpt, fagurheitum og fjölbreytileika, hafa slegið í gegn á heimsvísu. Verk íslenskra höfunda hafa fengið hljómgrunn hjá lesendum víðs vegar og hafa í gegnum tíðina skapað mikilvæga bókmenntaarfleifð. Að sama skapi hafa tónlistarmenn okkar heillað áhorfendur alþjóðlega. Allt frá framúrstefnupoppi Bjarkar til náttúrulegra hljóma Sigur Rósar hefur heimurinn orðið vitni að gríðarlegum möguleikum í listasamfélagi okkar. 

Íslenskar kvikmyndir eru þvert á móti fyrirsjáanlegar. Með rætur í drama, þurfum við árlega að þola straum kvikmynda sem snúast um týnda einstaklinga í leit að sjálfum sér og framúrstefnu-verkefni sem eiga erfitt með að hljóma meðal almennings. En er þessi iðja árangursríkasta nýting ríkisstyrkja?

Rúmlega helmingur allra íslenskra kvikmynda fara í erlenda dreifingu. Sé markmiðið að ná árangri erlendis er þá kannski kominn tími til að breyta hugarfari okkar um hvernig kvikmyndir við sköpum. Ef bókmenntir og tónlist geta fangað athygli heimsins, hvers vegna geta myndirnar okkar ekki gert það sama? Þetta snýst ekki um að yfirgefa alþjóðlegar vonir heldur um að skapa jafnvægi.

Árangur íslenskra bókmennta og tónlistar bendir til þess að áhorfendur séu hungraðir í íslenskar sögur sem við þekkjum. Þetta snýst um að faðma rætur okkar, sækja innblástur frá auði rita sem hafa jafnvel hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Sögurnar eru þar; þetta snýst um að laga þær að myndmiðlinum. Sýnum menningararfinum meiri virðingu! 

Þar að auki er þörf á að endurskoða tilgang þessara mynda. Þó að kvikmyndahátíðin í Cannes og aðrar alþjóðlegar hátíðir bjóði upp á virtan vettvang er mikilvægt að meta áhrifin á heimamarkað. Þurfa íslenskar kvikmyndir að keppast stöðugt um athygli á alþjóðavettvangi eða er kominn tími til að forgangsraða og beina sjónum að áhorfendum hér á landi?

Það er ákveðin stöðnun í íslenskri kvikmyndalist. Kvikmyndastefna til ársins 2030 horfir ekki til þessa vandamáls að íslenskar kvikmyndir skila ekki inn stórum áhorfendatölum erlendis. Skilgreining á árangi samkvæmt kvikmyndastefnunni felst í dreifingu og þátttöku á fjölda kvikmyndahátíða sem hefur þó ekki aukið hróður íslenskra kvikmynda. Velgengni bókmennta okkar og tónlistar vekur von um að einn daginn muni Ísland gefa út leikna íslenska stórmynd (e. blockbuster). Það er kominn tími til að nýta sögunar okkar, stöðva stanslausan eltingarleik við erlendar viðurkenningar og búa til kvikmyndir sem höfða fyrst og fremst til Íslendinga. 

Að lokum, tel ég íslenska kvikmyndagerð skulda okkur það að framleiða kvikmynd um Höllu og Fjalla-Eyvind. Með atriði í lokinn þar sem Halla syngur Sofðu unga ástin mín til barn síns áður en hún færir það örlögunum. Þar til að sú kvikmynd kemur er Berg-Ejvind, sænsk hljóðlaus kvikmynd frá 1918, stærsta arfleið Jóhanns Sigurjónssonar á kvikmyndasviðinu.

Höfundur er meistaranemi í fjölmiðla- og boðskiptafræðum.