Boðað hefur verið til kosninga 30. nóvember næstkomandi. Þetta var tilkynnt í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sleit stjórnarsamstarfi við Vinstri græna og Framsókn. Eins og kemur fram í frétt hjá Vísi er starfsstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar nú búin að taka við völdum, en Vinstri græn ákváðu að sitja ekki áfram í starfsstjórninni. Ný ríkisstjórn mun svo taka við að afloknum kosningum. Eitt af þeim stefnumálum sem munu skipta stúdenta miklu í komandi kosningum er stefna stjórnmálaflokkanna í málefnum háskólanna. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir stjórnmálaflokkana sem boðað hafa framboð og áherslur þeirra.
Sjálfstæðisflokkurinn
Formaður: Bjarni Benediktsson
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 14,2%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 17 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt vefsíðu Sjálfstæðisflokksins þarf að endurskoða fjármögnun háskólastigsins í heild sinni, þ.e.a.s. fjármögnunarlíkan kennslu og rannsókna og námslánakerfi. Beita þarf fjármögnun háskólanna markvisst til þess að efla gæði náms, kennslu og rannsókna um land allt. Sjálfstæðisflokkurinn telur að það ætti að fjölga valkostum og framboði á styttri námsleiðum t.d. á fagháskólastigi. Einnig telur flokkurinn að ýta ætti frekar undir samstarf háskóla og atvinnulífs og huga betur að núverandi og framtíðarþörfum atvinnulífsins fyrir starfsfólk þegar kemur að menntamálum. Þeim finnst að auka þurfi framboð á menntun og fræðslu á háskólastigi fyrir fötluð ungmenni og að fólk eigi að geta menntað sig óháð búsetu, fjölskyldu, fjárhag eða vinnu. Þau hvetja til eflingar rannsókna með almennum stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, hagnýtingu, erlent samstarf og vísindastarf.
Samfylkingin
Formaður: Kristrún Frostadóttir
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 26,1%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 6 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt vefsíðu Samfylkingarinnar þarf að efla fjárhagslegt stuðningskerfi námsmanna, húsnæðiskerfi og þjónustu við nemendur innan háskólanna. Einnig er Samfylkingin á móti skólagjöldum og skráningargjöldum í opinberum háskólum. Flokkurinn vill einnig bæta aðgengi að framhaldsnámi í listgreinum. Þau telja að það þurfi að tryggja að nemendur með annað móðurmál en íslensku bjóðist fjölbreytt háskólanám á Íslandi og fólk af erlendum uppruna með háskólamenntun fái menntun sína metna á Íslandi.
Vinstri græn (Vinstrihreyfingin – grænt framboð)
Formaður: Svandís Svavarsdóttir
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 4,4%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 8 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt vefsíðu Vinstri grænna þarf að tryggja fjölbreytt háskólanám og viðbótarnám framhaldsskóla og að nemendur hafi þann kost að geta sinnt slíku námi í fjarnámi. Vinstri grænir telja að það þurfi að stefna að því að halda gjaldtöku í lágmarki til að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi, þá sérstaklega þarf að horfa til náms sem er eingöngu aðgengilegt gegn háu gjaldi t.d. listnám á háskólastigi. Einnig benda þau á að það þurfi að skoða hvernig nýi Menntasjóðurinn virkar, þar sem hluti námslána er nú styrkur sem fer beint til námsmanna. Flokkurin telur það mikilvægt að tryggja að námsmenn fái næga framfærslu til að allir hafi jöfn tækifæri til náms. Einnig er nefnt að það þurfi að hækka frítekjumark til þess að tryggja rétt efnaminni nemenda til námslána óháð starfshlutfalli síðasta árs.
Viðreisn
Formaður: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 10,2%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 5 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt vefsíðu Viðreisnar þarf menntastefna allra skólastiga að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingar til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgangur að stafrænni tækni er mikilvægt jafnréttismál og er grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Viðreisn leggur áherslu á að efla raunfærnimat á framhaldsskólastigi, háskólastigi og á móti viðmiðum starfa í atvinnulífinu. Námslán og skólagjöld eiga að tryggja jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána Menntasjóðs námsmanna. Einnig að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, eigi kost á námslánum.
Framsóknarflokkurinn
Formaður: Sigurður Ingi Jóhannsson
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 6,3%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 13 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Í flokksþingsályktun sem samþykkt var 21. apríl 2024 kemur fram að Framsókn vilji tryggja öllum jöfn tækifæri til háskólamenntunar. Framsóknarflokkurinn telur að hækka þurfi framlög til Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlags- og launaþróun. Einstaklingar eiga ekki að verða fyrir óhóflegum skerðingum vinni þeir með námi. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að styrkja íslenskuna bæði fyrir þá sem læra íslensku sem fyrsta og annað mál. Þau telja að það sé hægt að gera það með þekkingaröflun um íslenskuna, kennslufræði íslenskunnar, þekkingarmiðlun til kennara á öllum skólastigum og beinni kennslu í íslensku á háskólastigi. Framsókn vill einnig sjá aukið framboð á fagháskólanámi og vill virkja möguleikann á að nýta hvatakerfi innan Menntasjóðs námsmanna.
Flokkur fólksins
Formaður: Inga Sæland
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 7,4%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 6 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Á vefsíðu Flokks fólksins kemur fram að það þurfi að veita námsfólki frelsi til að afla aukatekna, án lánaskerðinga. Ekki koma frekari stefnumál í menntamálum fram á heimasíðu Flokks fólksins. Hins vegar kemur fram á vefsíðunni Kjóstu rétt, þar sem stefnumál flokkanna fyrir kosningarnar 2021 voru kynnt, að Flokkur fólksins vilji bæta menntakerfið á öllum stigum og að menntun á Íslandi verði gjaldfrjáls fyrir alla þ.m.t. menntun í listum. Flokkur fólksins telja að háskólar eiga að geta gegnt hlutverki sínu með því að tryggja kröftugt rannsóknarstarf og með því er lagður grunnur að framþróun, aukinni framleiðni og bættum lífskjörum í landinu. Einnig kemur fram að allir eigi að hafa aðgang að menntun án tillits til efnahags og búsetu og að fatlaðir námsmenn eigi að geta valið sér nám eftir áhugasviði.
Miðflokkurinn
Formaður: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 18,7%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 2 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Ekki fannst sérstök stefna Miðflokksins í háskólamálum en í stefnumálum Miðflokksins fyrir kosningarnar 2021 kemur fram að Miðflokkurinn segir þörf á því að menntakerfið endurspegli þörf þjóðarinnar fyrir aukna verðmætasköpun og framþróun á næstu árum og áratugum. Lögð er sérstök áhersla á að styrkja tækni- og iðnnám og styðja þá sem vilja stunda nám í þessum greinum, en tryggja jafnframt jöfn tækifæri fyrir alla nemendur, óháð búsetu. Miðflokkurinn telur að atvinnulífið þurfi á því að halda að menntakerfið útskrifi fólk með þá þekkingu sem er mikilvæg fyrir efnahagslega uppbyggingu landsins. Miðflokkurinn vill einnig bæta stöðu drengja í skólakerfinu með því að horfa til þeirra þarfa þar sem staða karla í menntakerfinu sé ekki nægilega góð. Aðeins 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu í háskóla eru karlar og karlmenn eru nú einungis þriðjungur þeirra sem stunda háskólanám.
Píratar
Þingflokksformaður: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 7,6%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 6 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt almennri menntastefnu Pírata sem kom út árið 2017 skal tryggja öllum möguleika á að stunda það nám sem hann ræður við óháð efnahag, búsetu og aldri. Þetta á einnig við um háskólamenntun sem ætti að vera aðgengileg á hæfnisgrundvelli og óháð aldri. Píratar telja nauðsynlegt að háskólanemar hafi aðgang að lánum eða styrkjum sem duga til framfærslu og að endurgreiðsla á þeim lánum sé ekki svo íþyngjandi að hún fæli fólk frá námi sem það hefur getu til. Píratar vilja að í tengslum við námsmat á öllum skólastigum sé lögð áhersla á verkefnavinnu frekar en utanbókarlærdóm. Einnig telja þau að mikilvægt sé að sem mest af námsefni, bæði í háskólum og á öðrum skólastigum, sé fólki aðgengilegt á netinu því að kostnaðarlausu.
Sósíalistaflokkur Íslands
Formaður framkvæmdastjórnar: Gunnar Smári Egilsson
Fylgi í nýjustu könnun Gallup þann 29. september 2024: 5,1%
Núverandi fjöldi þingmanna á Alþingi: 0 þingmenn
Stefna í málefnum háskólanna: Samkvæmt vefsíðu Sósíalistaflokksins eiga háskólar í opinberum rekstri að vera nemendum að kostnaðarlausu. Sósíalistaflokkurinn vill að skólinn sé stéttlaus og tryggja þarf að þeir sem eru efnaminni hafi sömu tækifæri á öllum skólastigum. Sósíalistaflokkurinn telur einnig að það þurfi að vera starfandi sálfræðingar í öllum skólum og að hægt sé að leita til þeirra milliliðalaust. Flokkurinn leggur til að Lánasjóður íslenskra námsmanna taki upp styrkjakerfi og að fólki verði gert kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður ef það á við. Einnig telur flokkurinn að mikilvægt sé að styðja við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta, einkum í grunnnámi á háskólastigi.
Ný framboð
Lýðræðisflokkurinn var stofnaður nú í september 2024 af Arnari Þór Jónssyni. Í fréttatilkynningu sem Arnar birti á Facebook síðu sinni þann 29. september kemur efirfarandi fram: ,,Lýðræðisflokkurinn snýst um að efla lýðræði, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Þessi nýju stjórnmálasamtök verða byggð á heiðarleika og þeim gildum sem best hafa reynst“. Blaðamaður reyndi að hafa samband við Arnar Þór Jónsson varðandi stefnu Lýðræðisflokksins í málefnum háskólanna en ekkert svar hefur borist. Fréttin verður uppfærð ef svar fæst frá Arnari.
Skoðun nemenda á stjórnarslitum
Nokkrir nemendur HÍ voru spurðir um hvað þeim fyndist um stjórnarslitin. Þeir voru almennt á því að þetta hefði verið góð ákvörðun og eru spenntir fyrir framhaldinu. Einn viðmælandi nefndi þó að ríkisstjórnin sem mun taka við verði að öllum líkindum áfram það sama gamla. Hann taldi þannig að engar breytingar væru í vændum.