Nú þegar stutt er í Alþingiskosningar eru líklega flestir byrjaðir að velta fyrir sér hver fær þeirra atkvæði fer þann 30. nóvember næstkomandi. Það er mikilvægt að fólk láti sig kosningarnar varða og nýti sitt atkvæði en lýðræðið virkar best þegar sem flestir taka þátt í því. Síðustu ár hefur dregið úr þátttöku ungs fólks í kosningum hér á landi en það er mikilvægt að ungmenni átti sig á þeirri rödd sem þau hafa, mæti á kjörstað og leggi sitt atkvæði á vogarskálina.
Hegðunarmynstur sem við viljum koma í veg fyrir
„Það má segja að það séu tvær meginástæður (fyrir mikilvægi þess að ungt fólk kjósi). Annars vegar að við teljum það almennt mikilvægt fyrir lýðræðið að fólk taki þátt í því og að sem flestir láti sig lýðræðið varða og sömuleiðis vegna þess að við vitum að það að kjósa er vanabundin hegðun. Ef að fólk mætir ekki til að kjósa í sínum fyrstu nokkrum kosningum, þá er það mun ólíklegra til þess að byrja að kjósa síðar á lífsleiðinni. Þá verður til hegðunarmynstur sem verður til þess að fólk kýs yfir höfuð ekki. Hitt stóra málið er að ef við gefum okkur að hagsmunir, viðhorf og skoðanir ungs fólks séu ekki alltaf hin sömu og meðal þeirra eldri þá er bara gríðarlega mikilvægt að ungt fólk mæti á kjörstað til þess að þoka sínum málefnum og skoðunum áfram vegna þess að annars verða þau undir“ segir Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur og prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Hulda segir dræm þátttaka ungs fólks í kosningum hratt getað orðið að vítahring. Ef ungt fólk sé ekki álitið öflugir eða mikilvægir kjósendur geti flokkarnir lagt minni áherslu á að ná til þeirra bæði í málefnum og frambjóðendum. „Þetta ætti auðvitað líka að virka á hinn veginn og ég tel ábyrgð flokkanna mjög mikla að tefla fram bæði málefnum og yngri frambjóðendum sem höfða til þessa hóps kjósenda til þess að laða til sín kjósendur. Ábyrgðin er þeim megin fyrst.“
„Alls ekki himinn og haf þar á milli“
Þrátt fyrir umræðuna segir Hulda að þátttaka unga fólksins sé alls ekki hræðileg og vill hún vekja athygli á því. Hún segir 70% ungs fólks mæta á kjörstað og vill hún ekki ýta undir þá umræðu að ungt fólk sé alveg ómögulegt þegar kemur að þátttöku í stjórnmálum, það sé alls ekki raunin. Hún segir mælingar sýna að áhugi ungs fólks á stjórnmálum sé ekki mikið minni en hjá eldra fólki. „Það er aðeins munur, fólk er áhugasamara eftir því sem það verður eldra en það er alls ekki himinn og haf þar á milli og sömuleiðis ef við spyrjum fólk: „Hversu mikilvægt telurðu að nýta kosningaréttinn þinn?“ að þá telur ungt fólk það alveg jafn mikla skyldu sína og þeir sem eru eldri. Við merkjum hvergi í neinum gögnum sem við erum með að ungt fólk á einhvern hátt gefi skít í hefðbundin stjórnmál.“
Þrátt fyrir að þátttaka ungs fólks sé nokkuð góð hefur þó dregið úr kjörsókn þeirra á síðustu árum. Hulda segir að með hverri nýrri kynslóð sem kemur inn á kjósendamarkaðinn dvíni þátttakan en hún segir jafnframt að alls kyns ástæður geti legið þar að baki, hún nefnir fjórar megin ástæður fyrir þessum breytingum.
Breytt landslag
Í fyrsta lagi talar hún um breytt landslag í stjórnmálum hér á landi. Hér áður fyrr, þegar hún sjálf byrjaði að kjósa til dæmis, hafi kjósandi aðeins þurft að kynna sér örfáa flokka samanborið við kosningarnar í dag þar sem valið stendur á milli tíu mismunandi flokka. „Þú þarft bæði að vita hvað flokkarnir standa fyrir og vita hver þín skoðun er gagnvart þeim. Þegar ég var (að byrja að kjósa) þá þurfti ég bara að kynna mér fjóra flokka, mjög mikill munur á því, óneitanlega. Það er mun erfiðara að setja sig inn í tíu flokka heldur en fjóra eða fimm, þröskuldurinn er orðinn hærri.“
Flokkshollusta hefur minnkað
Önnur ástæðan sem hún nefnir er sú að flokkshollusta hefur minnkað til muna hér á landi og segir hún þá þróun ganga hönd í hönd við efnahagshrunið. Hún segir minnkandi flokkshollustu leiða til minni þrýstings frá þeim eldri á unga fólkið að mæta á kjörstað. „Hérna áður fyrr þá var: „Jæja Hulda mín nú mætir þú á kjörstað og kýst þennan flokk eins og við mamma þín höfum gert síðustu 20 ár.“ Eldri kynslóðin var að draga yngri kynslóðir á kjörstað af því að eldri kynslóðir voru svo flokkshollar, þau voru að tryggja sínum flokkum atkvæði.“
Miklu fjölbreyttari afþreying
Í þriðja lagi segir Hulda magn af afþreyingu í dag vera eina ástæðu fyrir dvínandi kjörsókn ungmenna. Hún nefnir að hér áður fyrr komst enginn hjá því að vita að kosningar væru í gangi þar sem lítið annað en línuleg dagskrá Ríkissjónvarpsins var í boði á dæmigerðum laugardegi. Þar sástu umfjöllun um kosningarnar og gast myndað þér skoðun án þess að þurfa að leita sérstaklega að upplýsingunum. Í allt öðrum raunveruleika nútímans segir hún ekkert mál að láta kosningar fram hjá sér fara ef áhuginn á þeim er takmarkaður, hægt sé að hanga á TikTok tímunum saman og ekkert séð um þær.
Fullorðinsveröldin fær að bíða
Að lokum nefnir hún svo að en önnur ástæðan geti verið sú að fólk fer seinna inn í dæmigerða fullorðinsveröldina en áhugi á stjórnmálum eykst að jafnaði eftir því sem fólk verður eldra. Hún segir tímamót eins og barneignir og fasteignakaup verða til þess að fólk finni meira fyrir kerfinu og hafi því frekar skoðun á hlutum sem það hafði enga skoðun á áður. „Við vitum frá gögnum frá hagstofunni að fólk fer aðeins síðar í svo mörg af þessum skrefum núna heldur en áður. Fólk er lengur að mennta sig, það eignast börn seinna en áður, giftir sig seinna en áður, flytur að heiman seinna en áður og það munar kannski einhverjum 4-8 árum þannig að þar með er mögulegt að stjórnmálaáhuginn sé að kvikna aðeins síðar. Að minnsta kosti á þessum hefðbundnu málefnum eins og stjórnmálaflokkarnir hafa sett þau fram.“
Kosningaprófin sniðugur kostur
Hulda segist mæla hiklaust með kosningaprófunum fyrir þá sem hafa ekki tök á því, eða hreinlega nenna ekki, að kafa ofan í stefnumál allra flokkanna. Þá nefnir hún kosningapróf sem RÚV býður upp á og bendir á að félagsvísindastofnun stefni á að setja slíkt próf í loftið á næstu dögum. „Þú er beðinn um að segja skoðun þína á einhverju máli sem þú hefur ekkert rosalega mikla skoðun á þannig að það kannski fær þig aðeins til að hugsa, til dæmis: „hvað finnst mér um virkjanir?“ Þá sérðu hver eru helstu málin af því að þau koma fram í þessum kosningaprófum. Ef þú ert búinn að taka kosningapróf á tveimur eða þremur stöðum og þú ert að fá svipaða flokka, þá geturðu kynnt þér þá sérstaklega og pælt aðeins í hverjir eru í framboði þar og hvað þér lýst best á þar.“
Lognmolla í ólgusjó
Hulda er ásamt Agnari Frey Helgasyni, Evu H. Önnudóttur, Jóni Gunnari Ólafssyni og Ólafi Þ. Harðarsyni nýbúin að gefa út bókina Lognmolla í ólgusjó en bókin kemur að ýmsu sem kemur við íslenskum stjórnmálum. „Við erum að gefa út bók núna, við sem að stöndum að Íslensku kosningarannsókninni, og hún heitir Lognmolla í ólgusjó og er bók um íslensk stjórnmál og íslenska kjósendur, á íslensku og skrifuð á aðgengilegan hátt. Hún er ætluð áhugasömum almenningin og þar er einn kaflinn um ungt fólk og lýðræði. Ég skrifaði þann kafla þannig ég er nýbúin að vera alveg þvílíkt að garfa í þessu og hugsa um þetta“ segir Hulda að lokum en mælt er með fyrir áhugasama að næla sér í eintak af bókinni og glugga í hana yfir hátíðirnar því þar geymast ýmsar áhugaverðar upplýsingar um kosningahegðun Íslendinga.
Kosningarpróf RÚV: https://kosningaprof.ruv.is